Hæfnivottorð er sú formlega útkoma sem fæst eftir mats- og faggildingarferli framkvæmt af þar til lögbæru yfirvaldi og sem ákvarðar hvort einstaklingur hafi náð ákveðnum námsárangri miðað við gefin viðurkennd hæfniviðmið.
Upplýsingar um hæfniramma á evrópskum mælikvarða er að finna í Europass og kemur úr gagnasöfnum innlendra hæfnivottorða sem endurspegla innlenda hæfniramma sem eru í eigu og stjórnað af löndum sem eru í Evrópska hæfnirammanum (EQF). Europass býður upp á nýjasta og dýrmætasta safn hágæðagagna um hæfnivottorð, innlenda hæfniramma og námstækifæri í Evrópu. Það spilar afgerandi hlutverk við að hjálpa námsfólki að finna námskeið í mismunandi löndum og gera vinnuveitendum og öðrum (t.d. matsstofnunum, fræðslu-/þjálfunaraðilum) kleift að átta sig á gildi hæfnivottorða frá mismunandi evrópskum löndum.
Eitt af aðalmarkmiðum ESCO er að byggja sterkari brýr milli heims náms og þjálfunar og vinnuheimsins. Það leiðir til þess að misræmi vegna færni minnkar og styður undir betri virkni vinnumarkaðarins. Kjarninn í framtíðarsýn ESCO er að koma upp sameiginlegum viðmiðunarkvarða sem geti stuðlað að gagnsæi, yfirfærslu, samanburði, auðkenningu og greiningu innihalds hæfnivottorða. Það þjónar þeim tilgangi að sýna fram á hvernig hæfni tengist þeirri færni og þeim störfum sem krafist er í mismunandi geirum og þeirri færni sem þörf er á í ýmsum störfum.
ESCO styður lýsingu og skilning á hæfniviðmiðum tengdum hæfniþáttum
Með því að bjóða upp á íðorðaforða um vinnumarkaðinn sem getur hjálpað til við að tengja hæfni við viðeigandi störf og færniþætti, þá gerir ESCO námsfólki, atvinnuleitendum og atvinnurekendum kleift að nota þessar upplýsingar á árangursríkan hátt. ESCO uppfyllir þessa þörf með því að leggja fram uppfærðan, gagnreyndan og margmála orðaforða um færni og störf.
ESCO styður náms- og þjálfunarkerfi sem taka mið af hæfniviðmiðum sem þjóna þörfum vinnumarkaðarins. Stofnanir sem veita gögn um menntun og hæfni geta notað ESCO til að bæta lýsingar á hæfniviðmiðum með færnitengdum hugtökum. Þessi samþætting þekkingar-, færni- og hæfnihugtaka við hæfniviðmið auðveldar skilning á hæfniþáttum hjá hagsmunaaðilum vinnumarkaðarins og vekur áhuga námsfólks bæði innan aðildarríkjanna og utan þeirra.
ESCO er einnig notað til að safna og greina gögn um færniþróun víða í Evrópu og til að nýta þá möguleika sem bjóðast með tækni stórgagnagreininga. Niðurstöður færnigreindarverkefna eru mikilvægur stuðningur og uppspretta upplýsinga fyrir mennta- og þjálfunarstofnanir, sem geta svo hjálpað þeim að þróa námskrár með því að taka með í reikninginn nýframkomnar færniþarfir.
Árið 2019 setti framkvæmdastjórn ESB í gang tilraunaverkefni í aðildarríkjunum til að prófa sjálfvirka tengslamyndun hæfniviðmiða við ESCO-færni á mismunandi tungumálum. Átakið leiddi til þróunar sérstaks upplýsingatæknitóls sem ætlað er að aðstoða innlend yfirvöld við þetta verkefni. Verkefnið sýndi fram á gildi þess að nota ESCO-færniflokkun til að stuðla að gagnsæi hæfniþátta og bæta gæði gagna varðandi hæfniviðmið á hæfiþáttum einstaklinga.
ESCO bætir einstaklingsbundnar námsleiðir og styður við starfsráðgjöf
Með því að nýta gögn ESCO um færni og störf, geta atvinnuleitendur og námsfólk fengið sérsniðnar tillögur um námstækifæri. Stafrænir vettvangar geta notað ESCO til að veita borgurum upplýsingar um námstækifæri, koma með tillögur að námskeiðum, þróa sérsniðin náms- og þjálfunartækifæri og mæla með námsleiðum byggt á færni fólks. Starfsráðgjafar hafa hag af ESCO með því að bjóða upp á markvissa leiðsögn og mæla með viðeigandi þjálfunaráætlunum sem byggja á færniþáttum og óskum um starfsframa einstaklings.
ESCO styður mat á óformlegu námi
Hægt er að nota ESCO til að meta óformlegt nám. Skýr og nákvæm hæfniviðmið sem fást með því að nota ESCO geta nýst til að auðkenna, skrásetja, meta og staðfesta þá færni og reynslu sem einstaklingur hefur öðlast gegnum óformlegt nám.
Stofnanir geta notað ESCO til að greina færni sem þróast hefur út frá tiltekinni starfsemi. Í framtíðinni ætti leitarvirkni Europass á námstækifærum eða hæfniþáttum að geta birt viðeigandi ESCO-færni tengda þeim námstækifærum og hæfniþáttum sem í hlut eiga. Ennfremur, þegar námsverkefni er lokið, getur námsmaður fengið stafræna vottun, eins og t.d. evrópskt stafrænt skírteini vegna náms.
Evrópska stafræna skírteinið vegna náms er staðall fyrir stafræn undirrituð skilríki sem geta tengst hvers kyns námsárangri, hvort sem hann er fenginn með formlegu eða óformlegu námi. Hægt er að bæta ESCO-færni við lýsingu á hæfniviðmiðum. Þannig má finna fleiri upplýsingar í skírteininu og bjóða upp á meira gagnsæi á þekkingu og færni einstaklings. Stafræna skírteinið er hægt að geyma í stafrænu veski eins og Europass-e-matsmöppuveskinu og deila því til vinnuveitenda og annarra stofnana, svo sem náms- og þjálfunaraðila sem sannanlegrar skrár um nám.